- Hvað liggur þér á hjarta varðandi starf þitt sem þú vilt koma á framfæri við fleira fólk?
- Viltu gefa fólki innsýn í starfið, laða fleiri að faginu eða t.d. vekja athygli á þjónustu eða viðburðum sem náms- og starfsráðgjafar standa að?
- Hver er munurinn á að vinna texta um slíkt til fjölmiðlabirtingar, fyrir vefi og samfélagsmiðla?
- Hvernig er hægt að byggja slíkan texta upp?
Á námskeiðinu „Hvað er að frétta?“ færðu svör við þessum spurningum og eflir um leið færni þína í að skrifa texta sem hægt er að nýta t.d. á eigin vef, vefjum fyrirtækja, stofnana, félaga eða á samfélagsmiðlum.
Námskeiðið fer fram dagana 17. september, 24. september og 1. október, frá kl. 15:00-16:00 í Háskóla Íslands (í Stapa gegnt Þjóðminjasafninu fyrri tvo dagana og í HT300 3. hæð á Háskólatorgi síðasta skiptið). Námskeiðið verður einnig í boði í fjarfundi fyrir þau sem ekki sjá sér fært að mæta á staðinn.
-
- Í fyrsta tímanum (17. sept) er fjallað almennt um skrif fyrir ólíka miðla, hvernig á að byggja þau upp og hvað ber að varast. Auk þess velja þátttakendur sér umfjöllunarefni til að skrifa um.
-
- Í öðrum tímanum (24 .sept) verður umsjónarmaður á staðnum og veitir þeim sem vilja ráðgjöf og leiðsögn við skrifin.
-
- Í þriðja tímanum (1. okt) kynna þátttakendur það efni sem þeir hafa unnið.
Umsjónarmaður námskeiðsins er Björn Gíslason, kynningar- og vefritstjóri Háskóla Íslands. Björn hefur í yfir tveggja áratuga reynslu af því að skrifa efni fyrir vefmiðla, bæði fjölmiðla og vefi stofnana, og hefur enn fremur umfangsmikla reynslu af miðlun á samfélagsmiðlum. Hann er með BA-gráðu í íslensku og meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku.

Námskeiðið er gjaldfrjálst fyrir félagsfólk FNS. Vonast er til að sem flest skrái sig, taki þátt og efli sameiginlega, með þessum hætti, sýnileika náms- og starfsráðgjafar og fagstéttarinnar.
Skráning fer fram hér.