Nýlega er lokið þriggja vikna námskeiði sem Félag náms- og starfsráðgjafa stóð að fyrir félagsfólk í textasmíð og framsetningu greinaskrifa og frétta. Námskeiðið er liður í sí- og endurmenntun félagsins og markmiðið að koma á framfæri efni um fagið, náms- og starfsráðgjöf og starf náms- og starfsráðgjafa.
Á þriðja tug félagsfólks skráði sig til leiks. Björn Gíslason, vef- og kynningarstjóri Háskóla Íslands leiðbeindi þátttakendum af mikilli fagmennsku og benti á margar leiðir til að segja frá áhugaverðum tíðindum.
Að sögn fyrrum formanns, Jónínu Kárdal, tókst námskeiðið vel, þátttakendur ánægðir og ljóst að ýmislegt er að frétta af fjölbreyttum starfsvettvangi náms- og starfsráðgjafa!
Nú er unnið að áhugaverðum fréttum og greinaskrifum sem munu birtast á næstu vikum á miðlum félagsins og víðar í samfélaginu.