Það eru ýmsar leiðir farnar varðandi virkniúrræði fyrir þá sem eru atvinnulausir – / með sjúkdóma/greiningar en ekki almenn eftirfylgd með öllum á þessum aldri.
Það að hringja í nemendur sem voru í grunnskólanum, sýna áhuga á því hvað þeir séu að gera, hvort þeir séu í vinnu, skóla eða hafi ekkert fyrir stafni og bjóða þá þeim sem vilja aðstoð með að komast aftur í nám eða annað. Margir þessara nemenda hafa staðið höllum fæti og sýna EKKI frumkvæði í að fara af stað í einhverjar virkniaðgerðir s.s. skóla/námskeið, búa jafnvel heima í foreldrahúsum og einangra sig þar við tölvur/sjónvarp oþh.
Það er mikilvægt að sveitarfélagið rétti þessum einstaklingum líflínu og dragi þau dálítið að landi a.m.k. fyrsta spölinn þar til þau geta synt sjálf af öryggi.
Ég undirrituð hóf að fylgja nemendum eftir í framhaldsskóla haustið 2005 með nemendum í árgangi 1995, í upphafi hafði ég frumkvæði að því að hafa samband við nemendur og kanna líðan og hvernig gengi í framhaldsskóla. Ég bauð nemendum aðstoð varðandi námið og skipulag þess og ef viðkomandi vildi ekki vera lengur í skóla þá bauð ég viðkomandi aðstoð við gerð ferilskráar og umsókna um störf til þess að þeir kæmust út á vinnumarkað en myndi ekki einangrast heima og missa tengsl við félagana. Fyrstu árin var eftirfylgdin aðeins frá Sandgerðisskóla og ekki formlegt plagg og úrvinnsla.
Árið 2014 hófu fræðsluyfirvöld að byggja upp formlegt plagg sem innihélt ákveðna verkferla og svo færðist þessi eftirfylgd einnig til Gerðaskóla og Stóru-Vogaskóla en þessi bæjarfélög eru með sameiginlegt félags- og velferðarsvið. Suðurnesjabær, grunnskólarnir, og framhaldsskólar (og HSS ekki alveg komið samstarf þarna), félagsmiðstöðvar og foreldrafélög ásamt velferðarsviði settu upp formlegt plagg þar sem tiltekið var hverjir voru ábyrgðaraðilar með verkefninu og hvert hlutverk hvers og eins væri. Þessi samstarfshópur hittist einu sinni á ári til að skoða hvort uppfæra þurfi verkefnið.
Verklýsing var sett upp og gætt vel að persónuverndarþættinum, verkefnið kynnt að vori í 10. bekk fyrir nemendum og forráðamönnum þeirra. Þeir sem vilja taka þátt skrifa undir upplýst samþykki fyrir því að náms- og starfsráðgjafi geti fylgt þeim eftir í framhaldsskóla og fengið upplýsingar um framvindu nemenda hjá námsráðgjafa í framhaldsskólanum. Þegar skóli hefst fær náms- og starfsráðgjafi upplýsingar um hvort allir nemendur sem sóttu um hafi skilað sér í skólann. Þegar kemur að miðannarmati fær náms- og starfsráðgjafi póst um það hvernig gengi hjá nemanda, hvort hann væri enn í skólanum og hvort viðkomandi þyrfti frekari aðstoð en geta leitað til okkar í grunnskólanum ef þau þurfa aðstoð.
Ef nemandi skráir sig úr skóla þá fær náms- og starfsráðgjafi póst um það, hefur samband við nemandann og býður honum aðstoð við að komast í önnur námsúrræði en ef viðkomandi vill ekki í nám heldur komast út á vinnumarkaði, fyllir náms- og starfsráðgjafi út tilvísunarplagg og kemur til félagsþjónustu bæjarins, þar tekur félagsráðgjafi boltann, hefur samband við viðkomandi nemanda og býður aðstoð við að komast í annað virkniúrræði svo nemandinn einangrist ekki heima og missi tengsl við jafnaldrana.
Þeir nemendur sem skrifa ekki undir upplýst samþykki fá samt fyrirspurn beint frá náms- og starfsráðgjafa t.d. í skilaboðum á samfélagsmiðlum um það hvernig þeim gangi en þar er það þeirra val að svara eða ekki, nemendur geta einnig óskað eftir aðstoð náms- og starfsráðgjafa sjálfir þó þeir hafi ekki skrifað undir upplýst samþykki, engum nemendum er neitað um aðstoð en náms- og starfsráðgjafi fær ekki upplýsingar um gengi viðkomandi nema þá frá honum sjálfum.
Nemendur hafa oft haft samband, beðið um upplýsingar, aðstoð með verkefni sín, yfirlestur verkefna oþh. nn náms- og starfsráðgjafi hjálpar þeim ef mögulegt. Það eru mjög fáir sem hafa skrifað undir upplýst samþykki sem hafa hætt námi, hef sent þrjár tilvísanir til félagsþjónustu frá 2017.
Það er mikilvægt fyrir ungmennin, fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild að skólaganga þeirra í skyldunámi sem og í framhaldsskóla sé farsælt fyrir samfélagið í heild. Allir eru mikilvægir í tannhjólinu sem keyrir samfélagið áfram.
Sýnishorn af upplýstu samþykki og tilvísunarblaði.

Síðustu ár hefur náms- og starfsráðgjafi Sandgerðisskóla skilað vorskýrslum um verkefnið, þar sem fram koma upplýsingar um hvernig nemendum skólans hefur gengið í framhaldsskólanum og hvort eitthvert brotthvarf hefur verið.
Það er mikilvægt að fylgja nemendum eftir enda eru þeir börn til 18 ára aldurs en á þeim tímamótum dettur þessi formlega eftirfylgd niður en þau geta eftir sem áður átt aðgang að náms- og starfsráðgjafa skólans a.m.k hjá okkur í Sandgerðisskóla.
Ragnhildur l. Guðmundsdóttir
Náms- og starfsráðgjafi
Sandgerðisskóli