Greta Jessen náms- og starfsráðgjafi hefur verið fulltrúi FNS í NFSY, Nordiska förbundet för studie- och yrkesväglening, síðastliðin fjögur ár og sótt sinn síðasta fund nú á vordögum í apríl.
Mig langar að segja ykkur frá síðasta fundi sem ég tók þátt í NFSY (Nordiska förbundet för studie- och yrkesvägledning) fyrir hönd FNS. Þetta var síðasti fundurinn minn í orðsins fyllstu merkingu þar sem ég hef verið fulltrúi FNS í fjögur ár og komið að öðrum að taka við.
NFSY heldur tvo fundi á ári. Haustfundurinn er haldinn í nóvember með rafrænum hætti og aðalfundurinn í apríl þar sem við hittumst. Þegar aðalfundurinn er haldinn er venja að fara í heimsóknir annan daginn og fundurinn haldinn seinni daginn. Danir tóku við formennsku af Svíum á aðfalfundinum í apríl 2023 og verða því næstu fundir haldnir í Danmörku.
Aðalfundur NFSY var haldinn í Kaupmannahöfn 5. og 6. apríl sl. Fyrri daginn var okkur boðið í heimsókn í NEXT mediegymnasium sem er á Fredriksberg í Kaupmannahöfn (www.nextkbh.dk/gymnasier/koebenhavns-mediegymnasium). Áherslan er lögð á miðlun og sköpun og fá nemendur svigrúm fyrir sköpunargáfu sína og hugmyndaflug. Skólinn er ríkulega búinn tækjum, tólum og aðstöðu fyrir nemendur til þess að láta hugmyndir sínar verða að veruleika.
Seinni heimsóknin var í UU København (Ungdommens uddannelsesvejledning). Í Danmörku eiga öll ungmenni 15-17 ára að vera með það sem er kallað „menntunaráætlun“ og fylgja henni. Í henni kemur fram lýsing á námi, virkni eða öðru sem gæti tengst því að vera að stefna í áttina að ákveðinni mentun. Foreldrar fá greiðslu frá sveitafélaginu (kannski mætti kalla það „unglingabætur“) ef þeirra unglingur fer eftir áætluninni sinni og er í virkni. Ef ekki, getur sveitafélagið stöðvað þessar greiðslur. Hjá UU starfa náms-og starfsráðgjafar sem fara út í alla grunnskóla í Kaupmannahöfn og aðstoða nemendur að setja sér markmið og gera menntunaráætlun. Mjög áhugavert að heyra af þessu.
Á aðalfundinum átti hvert land að segja frá því hvernig námi í náms-og starsráðgjöf er háttað. Mjög ólíkar kröfur eru milli landanna. Það sem mér þótti t.d. áhugavert var að í Finnlandi eru fleiri hundrum umsóknir um nokkur sæti í námið (289 umsóknir um 23 sæti í einum háskóla og 119 umsóknir um 10 sæti í öðrum).
Það sem stendur upp úr eftir þessi fjögur ár í NFSY er að það hefur verið einstaklega gefandi að hitta kollega á norðurlöndunum og heyra að þau eru að fást við svipaða hluti og áskoranir og við. Einnig hef ég fundið fyrir miklum áhuga á verkefnum okkar hér á Íslandi.
Takk fyrir mig.






