Látin er í Reykjavík Guðrún Hannesdóttir, félagsfræðingur, náms- og starfsráðgjafi og fyrrverandi forstöðumaður Hringsjár. Guðrún var formaður Félags námsráðgjafa 1983-1984. Ég kynntist Guðrúnu sumarið 1984 þegar ég skrifaði lokaritgerð í námi mínu í náms- og starfsráðgjöf í Frakklandi. Lokaritgerðin fjallaði um náms- og starfsráðgjöf á Íslandi og ég þurfti ekki að leita langt að formanni Félags námsráðgjafa, því hún bjó í næsta húsi. Þetta sumar átti ég mörg samtöl við Guðrúnu sem voru mér ómetanleg, bæði persónulega og vegna lokaritgerðarinnar. Synir okkar urðu góðir vinir og halda enn sambandi. Guðrún var einstaklega vel skapi farin og mikil hugsjónakona í menntamálum. Það kom ekki hvað síst fram í störfum hennar fyrir Hringsjá. Guðrún var alltaf til í að liðsinna námsbrautinni í náms- og starfsráðgjöf, hún tók nema í starfsþjálfun og kom að leiðsögn í MA ritgerðum. Hún hafði metnað fyrir hönd náms- og starfsráðgjafar og lét það í ljós. Mig langar til að þakka henni fyrir hennar liðsinni, jafnt persónulega og í menntun náms- og starfsráðgjafa. Guð blessi minningu Guðrúnar Hannesdóttur.
Guðbjörg Tulinius Vilhjálmsdóttir