Náms- og starfsráðgjöf

Meginmarkmið náms- og starfsráðgjafar er að efla vitund einstaklinga um hæfileika sína, viðhorf og áhuga þannig að þeir geti notið sín í námi og starfi. Ráðgjöfinni er ætlað að auðvelda fólki, á hvaða aldri sem er og við hvaða aðstæður sem er, að átta sig á styrkleikum sínum, færni og áhuga til að eiga hægara með að ákveða stefnu í námi og starfi.

Náms- og starfsráðgjafar geta m.a. veitt fólki aðstoð við:

  •     að átta sig á áhuga sínum og tengja við nám og störf, m.a. með áhugasviðsprófum
  •     að þekkja veikleika og styrkleika og efla starfshæfni
  •     markmiðasetningu
  •     að undirbúa atvinnuleit og gera ferilskrá og atvinnuumsókn
  •     að leita að áhugaverðu námi eða tómstundastarfi
  •     að bæta vinnubrögð og námstækni, s.s. hvað varðar skipulag, tímastjórnun, lestrar- og glósutækni o.fl.
  •     raunfærnimat
  •     að efla sjálfstraust, samskipti, samstarfshæfni og aðra persónulega ráðgjöf
  •     að finna upplýsingar um náms- og atvinnuframboð á Íslandi og erlendis
     

 Hvar starfa náms- og starfsráðgjafar?

Náms- og starfsráðgjafar starfa víða í samfélaginu svo sem með börnum og unglingum í grunn- og framhaldsskólum en einnig með fullorðnum á háskólastigi og í tengslum við sí- og endurmenntun, atvinnuleit og endurhæfingu á vinnumarkaði. Einnig starfa náms- og starfsráðgjafar við fræðslustörf og stjórnun hjá einkafyrirtækjum.

Hverjir geta notið þjónustu náms- og starf sráðgjafa?

Nemendur í grunn- og framhaldsskólum eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa. Þjónusta náms- og starfsráðgjafa er einnig aðgengileg í háskólum sem og hjá sí- og endurmenntunarmiðstöðvum um land allt.

 Hvernig verður maður náms- og starfsráðgjafi?

Náms- og starfsráðgjöf er kennd við Háskóla Íslands. Um er að ræða tveggja ára nám á meistarastigi sem lýkur með meistaraprófi (120e). Að námi loknu geta nemendur sótt um lögverndað starfsheiti sem náms- og starfsráðgjafi.