Siðareglur IAEVG

SIÐAREGLUR IAEVG FYRIR NÁMS- OG STARFSRÁÐGJAFA

Inngangur

Alþjóðasamtök náms- og starfsráðgjafa skuldbinda sig til að vinna að gæðum náms- og starfsráðgjafar á alheimsmælikvarða og sjá til þess að starfið sé unnið af hæfu og viðurkenndu fagfólki, með það fyrir augum að auðvelda val og ákvarðanir einstaklinga á öllum aldri, þegar þeir standa á tímamótum í námi og starfi. Siðareglur þessar byggja á erindisbréfi (Mission Statement) Alþjóðasamtakanna, IAEVG. Þar kemur fram að IAEVG uppfylla skyldur sínar með tilliti til:

    Að mennta og auka hæfni náms- og starfsráðgjafa.
    Að þróa aðferðir í ráðgjöf m.t.t. mismunandi aldurshópa og íbúasamsetningar.
    Að stuðla að rannsóknar- og þróunarstarfi.
    Að vera málsvari þeirra sem þurfa á náms- og starfsráðgjöf að halda gagnvart yfirvöldum og stofnunum.

Skyldur IAEVG sem faglegra samtaka eru að stuðla að gæðum og þróun í ráðgjöf, m.a. með rannsóknum og því að leggja áherslu á persónulegt val á námi og starfi. Þessar skyldur skapa þörf fyrir siðareglur sem geta vísað náms- og starfsráðgjöfum leið, verið grunnur að sjálfsmati innan faghópsins og veitt almenningi upplýsingar um fagmennsku og vinnubrögð stéttarinnar.

Þessar siðareglur eru í samræmi við siðareglur annarra skyldra fagstétta sem einnig vinna að ráðgjöf við einstaklinga í tengslum við nám og störf. Á þann hátt leggja siðareglur IAEVG áherslu á manngildi, virðingu og hið einstaka í hverjum manni. Siðareglur eru settar fram sem lágmarkskröfur. Þær taka ekki til allra þeirra mismunandi álitamála sem ráðgjafar standa frammi fyrir vítt og breitt um heiminn og á mismunandi menningarsvæðum. Þeim siðareglum sem hér fara á eftir er ætlað að styðja meðlimi IAEVG til þess að þróa sín eigin siðferðisviðmið og einnig að vera leiðbeinandi plagg þegar siðareglur í náms- og starfsráðgjöf eru samdar í hverju landi fyrir sig.

SIÐAREGLUR

Viðhorf til ráðþega

  • Félagsmenn IAEVG eiga fyrst og fremst að virða hvern einstakling sem til þeirra leitar. Þetta felur í sér að hver einstaklingur tekur sjálfstæða ákvörðun, ber ábyrgð á eigin ákvörðunum og þroska og að trúnaður ríkir í ráðgjafarferlinu. Ráðgjafa ber að þekkja lög og reglur varðandi réttindi skjólstæðings.
  • Félagsmenn IAEVG eiga að gæta jafnréttis í náms- og starfsráðgjöf, og ekki gera upp á milli einstaklinga varðandi félagsstöðu, menntun, kyn, kynþátt, menningu, trú, kynhegðun eða fötlun og forðast alla mismunun.
  • Félagsmenn IAEVG líta á heildarþarfir einstaklings (varðandi nám og starf og persónuleg og félagsleg mál) og hvernig samspil þeirra hefur áhrif á ákvarðanir einstaklingsins um nám og starf. Náms- og starfsráðgjafar eiga að vísa til annarra sérfræðinga ef hæfni þeirra samræmist ekki þörfum ráðþega.
  • Félagsmenn IAEVG upplýsa ráðþega sína munnlega eða skriflega um markmið, aðferðir og siðareglur sem náms- og starfsráðgjafar vinna eftir, hvenær ber að leita til annarra sérfræðinga og hvaða lög og reglugerðir takmarka ráðgjafarþjónustuna. Kynna þarf allar takmarkanir á trúnaði á milli ráðgjafa og ráðþega áður en ráðþeginn ákveður hvernig hann vill bregðast við þeim. Miðlun trúnaðarupplýsinga krefst þess að ráðþegi veiti samþykki sitt.
  • Félagsmenn IAEVG ýta undir að ráðþegi taki sjálfstæðar ákvarðanir og forðast að stýra vali ráðþega eða hafa á annan hátt áhrif á fyrirætlanir, gildismat, lífsstíl eða mat einstaklings á verðmætum. Ef ráðþegar hafa andfélagslegar skoðanir sem eru hættulegar þeim og öðrum, þá getur verið nauðsynlegt að ráðgjafar bendi á eigið faglegt gildismat og eigin sýn á grundvallarreglur samfélagsins um samskipti fólks.
  • Félagsmenn útskýra á einfaldan hátt fyrir ráðþegum innihald, tilgang og niðurstöður ýmissa prófa og mælitækja sem stuðst er við í ráðgjöf. Náms- og starfsráðgjafar sem leggja fyrir próf eiga að nota viðeigandi viðmið til að velja, stýra og túlka slík mælitæki. Ráðgjafar eru vakandi fyrir að ný verkfæri sem líta dagsins ljós eins og t.d. próf sem lögð eru fyrir í tölvu krefjast stöðugrar endurskoðunar og þjálfunar í notkun og túlkun á niðurstöðum.
  • Félagsmenn IAEVG nýta sér nýja tækni og aðferðir ef rannsóknir og mat sýna fram á gagnsemi þeirra. Ráðgjafarnir tryggja að val á aðferðum og tækni henti þörfum ráðþega í hverju tilfelli, að ráðþeginn skilji hvernig hann getur nýtt sér þær aðferðir og þá tækni sem valin er og að honum bjóðist ráðgjöf sem sjálfsagt framhald. Félagsmenn tryggja að minnihlutahópar eigi aðgang að bestu hugsanlegri tölvutækni og réttum upplýsingum sem ekki gera upp á milli fólks.
  • Félagsmenn IAEVG nýta faglega þekkingu sína og menntun til þess að tryggja að upplýsingar sem þeir gefa einstaklingum, samtökum og stofnunum séu skýrar, nákvæmar og viðeigandi en ekki rangar og misvísandi.
  • Félagsmenn IAEVG forðast hagsmunaárekstra sem geta varðað hag ráðþega og tengjast þeim stofnunum sem ráðgjafar vinna við, s.s. vinnumiðlanir og menntastofnanir. Ef möguleiki er á hagsmunaárekstrum ber að gera ráðþegum grein fyrir þeim.
  • Félagsmenn IAEVG benda á viðeigandi úrræði ef þeir geta ekki veitt þjónustuna sjálfir eða kjósa að draga sig í hlé.

Viðhorf til starfsfélaga og annars fagfólks

  • Félagsmenn IAEVG leggja sitt af mörkum til að þróa og viðhalda samstarfi og samvinnu við starfsfélaga sína og stjórnendur til að greiða leið fyrir þróun náms- og starfsráðgjafar.
  • Félagsmenn IAEVG eru ábyrgir fyrir að miðla upplýsingum til starfsfélaga sinna og stjórnenda um mikilvæga þætti í náms- og starfsráðgjöf s.s um trúnað og virðingu fyrir einkahögum.
  • Félagsmenn IAEVG miðla til starfsfélaga sinna og stjórnenda nákvæmum, hlutlægum og viðeigandi upplýsingum um þörfina fyrir starf náms- og starfsráðgjafa og árangur af því starfi.
  • Félagsmenn IAEVG vinna með öðrum náms- og starfsráðgjöfum að því að innleiða siðareglur fyrir náms- og starfsráðgjöf. Ef upp koma siðferðileg álitamál um starf náms- og starfsráðgjafa ber félagsmönnum að ræða þau við viðkomandi aðila eða nota viðeigandi boðleiðir til að um slík mál verði fjallað.
  • Ef upp kemur ágreiningur í tengslum við siðareglur ber félagsmönnum IAEVG að ráðfæra sig við ábyrga stjórnendur með það fyrir augum að gera sér grein fyrir umfangi vandans og vinna að úrlausn mála.

Viðhorf til stjórnvalda og annarra yfirvalda

  • Ef nauðsyn ber til geta félagsmenn IAEVG verið talsmenn fyrir og verið ráðgefandi varðandi þróun náms- og starfsráðgjafar sem er byggð á siðareglum og er viðeigandi út frá þörfum ráðþega. Slík vinna er unni í samráði við stjórnendur og stefnumótunaraðila.
  • Félagsmenn IAEVG eru meðvitaðir um þá hæfni og þá menntun og þjálfun sem vænst er af náms- og starfsráðgjöfum og upplýsa fulltrúa löggjafarvalds og stjórnvalda þar um.
  • Félagsmenn IAEVG eru í samstarfi við samtök og einstaklinga innan stofnana með það fyrir augum að koma til móts við þörfina fyrir náms- og starfsráðgjöf.

Skyldur varðandi rannsóknir og þróun

  • Félagsmenn IAEVG sem til þess hafa hæfni og þekkingu gangast við þeirri ábyrgð sinni að stunda rannsóknir og nýra í vinnu sinni þær aðferðir sem samrýmast siðferðilegum og vísindalegum viðmiðum sem gilda í menntunar- og sálarfræðum. Þegar upplýsingar eru notaðar á tölfræðilegan hátt við mat, í rannsóknar- og þróunarvinnu skal tryggja nafnleynd einstaklinga.
  • Félagsmenn IAEVG viðurkenna þá ábyrgð sína að taka þátt í framförum í náms- og starfsráðgjöf með því að miðla færni, vitneskju og sérþekkingu til samstarfsfélaga og faglegra samtaka s.s. IAEVG.

Einstaklingsbundin ábyrgð náms- og starfsráðgjafans

  • Félagsmenn IAEVG byggja upp og þróa fagþekkingu sína sem náms- og starfsráðgjafar með grunnmenntun og viðhalda þekkingu sinni með símenntun á þeim sviðum sem krafist er í starfsgreininni.
  • Félagsmenn IAEVG starfa innan marka menntunar sinnar og reynslu og vísa í ákveðnum tilvikum til annarra fagaðila. Hver félagsmaður notar siðareglurnar og tekur ábyrgð á faglegum gerðum sínum.
  • Félagsmenn IAEVG skulu í störfum sínum endurspegla mannúðarsjónarmið og taka samtímis mið af samfélagslegum og pólitískum vandamálum sem hafa áhrif á siðræna hlið ráðgjafarinnar. Slík vandamál geta t.d. falið í sér spurningar eins og: Hverjir eru ráðþegar mínir (nemendur, fólk í vinnu, atvinnulausir, vinnuveitendur eða almenningur) og siðferðilegar hliðar ráðgjafarinnar gagnvart mismunandi hópum; Hvernig hinar ýmsu aðferðir í ráðgjöf (einstaklingsráðgjöf, hópráðgjöf, ráðgjöf út frá upplýsingatækni, samráð við stjórnendur í sambandi við starfsmannahald) eru mismunandi út frá siðferðilegum sjónarmiðum; Hvernig eiga náms- og starfsráðgjafar að bregðast við siðferðilegri togstreitu milli efnahagslegra og umhverfislegra þátta í atvinnulífinu og í lífi ráðþega.
  • Félagsmenn IAEVG eru ábyrgir fyrir að viðhalda og þróa faglega þekkingu og sækja sér reglubundna endurmenntun til að geta veitt ráðþegum með mismunandi menningarlegan bakgrunn faglega þjónustu. Náms- og starfsráðgjafar þurfa að geta nýtt sér nýjar kenningar og úrræði, hugbúnað og matsgögn. Félagsmenn IAEVG leitast við að fylgjast með nýjungum og stefnum í náms-og starfsráðgjöf og persónulegri ráðgjöf og horfast í augu við að slík símenntun er nauðsynleg allan starfsferilinn.
  • Félagsmenn IAEVG sækja sér handleiðslu reglulega til að auka þekkingu sína og færni, sem er nauðsynleg til að geta sinnt faglegum skyldum og viðhalda færni sinni í starfi.
  • Félagsmenn IAEVG eru meðvitaðir um gildi sín og viðhorf, til að geta verið hlutlægir í vinnu sinni með ráðþegum. Þeir forðast fordóma af öllu tagi, s.s. gagnvart kynþáttum, kyni og aldri.
  • Félagsmenn IAEVG ráðfæra sig í trúnaði við samstarfsfólk eða fagfélag sitt um álitamál varðandi þessar siðareglur, ef þær eru óskýrar eða margræðar, til að reyna að skýra þær eða finna leiðir til leiðréttingar. Heimilt er að skjóta óleystum ágreiningsmálum til samtaka IAEVG til úrlausnar.

Íslensk þýðing unnin af Huldu Önnu Arnljótsdóttur og Sigrúnu Ágústsdóttur.