Nú þegar starfsárið er farið af stað og allir komnir á fullt í nýjum (og gömlum verkefnum) þá er um að gera að líta til framtíðar og skoða þau spennandi tækifæri sem framundan eru.
Vill stjórnin þá hvetja félagsfólk til að skrá sig til þátttöku á NoRnet ráðstefnuna sem haldin verður á Hótel Örk í Hveragerði fimmtudaginn 2. október og föstudaginn 3. október. Þar er frábært tækifæri til að hittast og hlusta á góð erindi sem eiga svo sannarlega við dagleg störf margra náms- og starfsráðgjafa. Hægt er að kynna sér dagskránna hér.
Það gleður undirritaða mikið að deila þeim tíðindum að félaginu hefur verið úthlutaður styrkur frá Erasmus+. Það er í tengslum við starf undirfélags þeirra EuroGuidance sem hefur verið að vinna að því að samræma náms- og starfsráðgjöf og -fræðslu innan Evrópu í takt við stefnu þeirra um ævilangamenntun (e. Lifelong Learning) með landskrifstofum víðs vegar um Evrópu.

Þessi styrkur er til verkefnisins Endurmenntun og alþjóðavæðing náms- og starfsráðgjafa á Íslandi sem stjórn FNS hefur unnið hörðum höndum að því að koma á fót. Vissulega geta margir náms- og starfsráðgjafar á Íslandi sótt í ýmsa endurmenntunar styrki í gegnum starfsveitendur eða stéttarfélög en með þessum styrk gefst félaginu tækifæri til að efla faglegt starf og stuðla að auknu tækifæri félagsfólks til endurmenntunar sem er í takt við tilgang félagsins eins og nefnt er í lögum FNS.
Það eru fagfélög náms- og starfsráðgjafa innan hvers lands sem heldur utan um academíurnar í samvinnu með landskrifstofum Euroguidance. Framundan er því skemmtileg vinna sem felst í því að skipuleggja Academiu hér á Íslandi og halda utan um þá erlendu náms- og starfsráðgjafa sem kjósa að koma til okkar. Að auki opnast ný tækifæri fyrir félagsfólk til að sækjast eftir þátttöku í erlendum Academiu sem haldnar eru víðs vegar um Evrópu.

20. október er dagur náms- og starfsráðgjafar
Að lokum má ekki gleyma að minnast á árlegu ráðstefnu FNS sem haldin verður í lok október og er í tilefni Dags náms- og starfsráðgjafa 20. október. Fræðslunefnd FNS og stjórn FNS hlakkar til að deila frekari upplýsingum og dagskrá ráðstefnunnar þegar að nær að dregur.
Höfundur greinar er Jóhanna María Vignir, varaformaður FNS ’25-’26.