Félag náms- og starfsráðgjafa hefur árlega, allt frá árinu 2006, veitt náms- og starfsráðgjafa úr röðum félagsfólks, viðurkenningu fyrir framlag sitt til nærsamfélagsins, fagsins og stéttarinnar. Tilgangur slíkrar viðurkenningar er að vekja athygli á fagmennsku og nýsköpun í starfi náms- og starfsráðgjafa sem og framlagi viðkomandi til fags og stéttar.
Í ár hlaut Þórdís Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi við Tækniskólann, viðurkenningu félagsins en þau voru afhent á árlegri haustráðstefnu FNS þann 17. október síðastliðinn.
Framlag Þórdísar felst í starfi hennar með fólki af fjölbreyttum uppruna, að stuðla að auknu menningarnæmi í starfi og skilningi á aðstæðum fólks í viðkvæmri stöðu.
Á starfsferli sínum sem náms- og starfsráðgjafi hefur hún unnið af mikilli fagmennsku og alúð að málefnum einstaklinga með skerta starfsgetu, nemenda með íslensku sem annað mál og nemenda sem eru í brotthvarfshættu. Hún hefur lagt sig fram við að þessir hópar njóti jafnréttis og jafnræðis þegar kemur að námi og starfi. Hún hefur skýra sýn á hvernig náms- og starfsráðgjöf getur breytt aðstæðum fólks í viðkvæmri stöðu og þeirra sem hafa íslensku sem annað mál.
Þórdís hefur komið að menntun náms- og starfsráðgjafa með því að skipuleggja og kenna námskeiðið Hópráðgjöf og fjölmenningarleg ráðgjöf við námsbrautina við Háskóla Íslands. Þar leggur hún mikilvægt lóð á vogarskálarnar við að efla þekkingu og skilning á menningarnæmi og fjölbreytileika innan fagstéttarinnar.
Hjartanlegar hamingjuóskir með viðurkenninguna, kæra Þórdís.