Höf. Jóhanna María Vignir, formaður FNS
Í dag, 20. október, fögnum við degi náms- og starfsráðgjafar, dagur sem minnir okkur á mikilvægi starfsins sem við gegnum í menntakerfinu og á vinnumarkaði. Við sem náms- og starfsráðgjafar höfum það hlutverk að styðja við einstaklinga á þeirra vegferð til vöxts og vellíðan, hvort sem það snýr að námi, starfsvali eða persónulegri þróun.
Yfirskriftin „Vöxtur og vellíðan“ dregur fram þau kjarnagildi sem við vinnum eftir daglega og var einnig yfirskrift ráðstefnu FNS 17. október síðastliðinn. Við vinnum ávallt að því að styðja einstaklinga við að þróa sjálfa sig, hvort sem það snýr að námi, starfi eða persónulegum málum. Vöxtur er ekki aðeins að ná markmiðum, heldur líka að tileinka sér þekkingu og færni sem stuðlar að sjálfbærum framförum. En til þess að þessi vöxtur verði mögulegur, þarf að tryggja að vellíðan sé í fyrirrúmi.
Það sem skiptir þó mestu máli er að við munum að hver dagur er tækifæri til að vaxa bæði sem einstaklingar og sem fagfólk. Við höldum áfram að þróa okkar starf í takt við breyttar aðstæður og höfum vellíðan okkar sjálfra og ráðþega okkar að leiðarljósi.
Á degi náms- og starfsráðgjafa skulum við því fagna þeim árangri sem við höfum náð, en um leið horfa fram á veginn og halda áfram að vinna að vexti og vellíðan fyrir alla.
Það var mér mikill heiður að hefja störf mitt sem formaður Félags náms- og starfsráðgjafa (FNS) með því að opna haustráðstefnu félagsins þann 17. október síðastliðinn.
Til að segja aðeins frá sjálfri mér, þá starfa ég sem náms- og starfsráðgjafi við Gerðaskóla og hef gert það frá útskrift minni árið 2021. Ég er þó í fæðingarorlofi um þessar mundir en mun snúa aftur til starfa fyrir næstu páska. Í námi mínu skrifaði ég meistararitgerð sem fjallaði um hvernig meta megi áhugasvið barna og ungmenna út frá tómstundum þeirra, bæði í rafrænum heimi og raunheimi. Leiðbeinandi minn við ritgerðina var Sif Einarsdóttir. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á að vinna með börnum og það er mér sérstök ánægja að starfa innan grunnskóla.
Félagsstörf mín innan FNS hófust þegar Hildur Björg, gjaldkeri stjórnarinnar, bauð mér að taka þátt í kjaranefnd FNS, þar sem hún sjálf átti sæti. Ég þáði það boð með miklum áhuga, enda hef ég ávallt haft ríkan áhuga á kjaramálum og réttindum. Eftir að hafa setið í nefndinni með Hildi í nokkra mánuði, hvatti hún mig til að bjóða mig fram í stjórn félagsins á næsta aðalfundi. Ég var tilbúin til að takast á við það verkefni, þar sem mér hafði fundist nefndarstarfið mjög skemmtilegt og fannst einnig spennandi að fá tækifæri til að starfa í stjórn félagsins.
Starfstími minn í stjórninni hefur verið einstaklega skemmtilegur og lærdómsríkur og ég hlakka mikið til að leiða félagið áfram í þeim spennandi verkefnum sem framundan eru. Verkefni stjórnarinnar snúast nú m.a. um að ljúka vinnu við starfslýsingar, sem hófst á síðasta ári, og að semja drög að stefnumótun félagsins fyrir næstu ár. Í þeim verkefnum sem framundan eru er ljóst að áframhaldandi vöxtur og vellíðan bæði okkar og þeirra sem við störfum með verður lykilatriði.
Ég er þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og ég hlakka til að vinna með ykkur að því að efla og styrkja starf náms- og starfsráðgjafa á næstu árum. Með samstöðu og fagmennsku getum við tryggt að stétt okkar haldi áfram að vaxa og blómstra.