Kæra félagsfólk, þá er komið að fyrsta viðburði fræðslunefndar þetta árið. Siðanefnd ætlar að taka af skarið og boðar til umræðu- og fræðslufundar.
Pistill frá Siðanefnd FNS
Hvernig notum við siðareglurnar okkar í daglegum störfum?
Nýjasta útgáfa af Siðareglum FNS var samþykkt á aðalfundi 2021 og eins og segir í formála þeirra, er þeim ætlað að efla fagvitund náms- og starfsráðgjafa og stuðla að fagmennsku í starfi með hagsmuni ráðþega í fyrirrúmi. Tilgangur þeirra er jafnframt að vera náms- og starfsráðgjöfum siðferðilegt leiðarljós í starfi, upplýsa almenning um hugsjónir og faglegar skyldur náms- og starfsráðgjafa, og vera mælikvarði á vönduð vinnubrögð innan fagstéttarinnar.
Skráðar siðareglur þykja orðið sjálfsagður þáttur í ábyrgri fagmennsku og faglegu sjálfræði. Þær gefa fagfólki og almenningi fyrirheit um að fagstéttin muni nýta bestu þekkingu og aðferðir sem völ er á til að þjóna ráðþegum.
Þetta krefst þess að hver fagmaður sé meðvitaður um siðferðislegar skuldbindingar starfs síns og ígrundi þær reglulega.
Siðanefnd boðar til fjarfundar 30. janúar kl. 14 –15 í samráði við Fræðslunefnd. Soffía Valdimarsdóttir lektor HÍ verður með innlegg á fundinum. Vonandi verða umræður líflegar og gagnlegar um þetta mikilvæga leiðarljós í starfi okkar í síbreytilegum heimi.
Umræðuefni/vangaveltur:
Hvernig geta siðareglur FNS hjálpað mér að setja mörk sem stuðla að fagmennsku, öryggi og sjálfstrausti í starfi?
Hvernig snúa siðareglur að trúnaði við ráðþega? Hafa nýju velferðarlögin einhverju breytt varðandi trúnað?
Þar sem lögum sleppir gilda siðareglur?
Geta siðareglur hjálpað til að útskýra fyrir ráðþegum, stjórnendum og samstarfsfólki okkar mörk?
Kallar síbreytilegur heimur á sífellda endurskoðun siðareglna? Hversu oft ætti að yfirfara þær og hvernig á að standa að því?
Linkur á Teamsfund er sendur á póstlista félagsins.
Hlökkum til að sjá sem flesta.
Með kærri kveðju,
Siðanefnd FNS 2023-2024
Ágústa, Guðrún, Ingibjörg og Ólöf