Samantekt frá Degi náms- og starfsráðgjafar

Árlega er Dagur náms- og starfsráðgjafar haldinn hátíðlegur. Í ár var ákveðið að halda afmælishátíð þar sem þessum degi var komið á fót fyrir 10 árum, Félag náms- og starfsráðgjafa varð 35 ára og námsbrautin fagnaði 25 ára afmæli. Yfirskrift dagsins var Náms- og starfsráðgjöf í 35 ár og fólki var boðið um borð í tímavél þar sem ferðast var aftur til fortíðar, staldrað við í nútíðinni og skyggnst inn í framtíðina. Afmælishátíðin fór fram á Icelandair Hótel Reykavík Natura þann 4. nóvember 2016. Mikill áhugi var fyrir hátíðinni og mættu um hundrað náms- og starfsráðgjafar. Fundarstjóri var Inga Berg Gísladóttir náms- og starfsráðgjafi í Háskóla Íslands.

Ingibjörg Kristinsdóttir formaður félagsins setti daginn og í kjölfarið sagði Jónína Kárdal okkur frá fyrsta formlega degi náms- og starfsráðgjafar á líflegan hátt og skoraði á félagsmenn að halda viku náms- og starfsráðgjafar árið 2017. Þar sem við vorum í afmælisveislu þótti viðeigandi að líta yfir farinn veg og fór Guðbjörg Vilhjálmsdóttir yfir sögu náms- og starfsráðgjafar á Íslandi sem hún hefur skráð. Einnig settum við upp tímalínu þar sem fyrrum formenn félagsins röðuðu sér upp og fóru yfir það helsta sem stóð upp úr í þeirra tíð. Á þessum tímapunkti vorum við búin að fara yfir fortíðina og komin í nútímann. Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur var veitt heiðursviðurkenning Félags náms-og starfsráðgjafa fyrir störf sín í þágu greinarinnar. 

Að loknu kaffihléi fræddi Maríanna Friðjónsdóttir sérfræðingur og ráðgjafi um samfélagsmiðla okkur um ímynd og sýnileika almennt en sérstaklega á samfélagsmiðlum. Maríanna talaði til okkar í gegnum Skype – beint frá Portúgal. Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir ritstjóri samfélagsmiðla hjá RÚV fjallaði í framhaldinu um notkun samfélagsmiðla og hvernig náms- og starfsráðgjafar geta notað þá í störfum sínum og í markaðssetningu. 

Að loknum hádegisverði kynnti Sif Einarsdóttir nýjan tölvuleik í náms- og starfsfræðslu. Útgáfa leiksins er fyrirhuguð um áramótin og verður fróðlegt að prufa hann. 

Eftirmiðdagurinn fór í vinnu þar sem þátttakendur röðuðu sér í 10 hópa. Hver hópur fékk að spreyta sig á fimm umræðuefnum sem tengdust efni dagsins. Sem dæmi má nefna: Hvaða samfélagsmiðlar henta best mismunandi ráðþegahópum og hvernig? Hverjir eru kostir og gallar samfélagsmiðla í ráðgjöf? Hugmyndir að slagorðum fyrir náms- og starfsráðgjafa? Margar skemmtilegar hugmyndir komu fram sem félagið ætlar sér að nýta í náinni framtíð.  

Undir lokin kynnti Upplýsinga- og tækninefnd FNS glæsilegt afmælisvefrit sem félagsmenn eru hvattir til að lesa. Elín Thorarensen sagði frá Íslandsmóti iðn- og verkgreina og stóru framhaldsskólakynningunni sem haldin verður Laugardalshöll 15.-18. mars 2017 en náms- og starfsráðgjafar spila þar stórt hlutverk í að kynna námsframboð fyrir grunnskólanemendum. Síðast en ekki síst skoraði Jónína Kárdal FNS á að halda næst Viku náms- og starfsráðgjafar í stað Dag náms- og starfsráðgjafar.

Frábærum Degi náms- og starfsráðgjafa var slitið með hressandi uppistandi Elvu Daggar Gunnarsdóttur, sem fékk salinn til að hlæja vel og innilega og svo var boðið upp á afmælistertu í tilefni dagsins. 

 

Fræðslunefndin þakkar kærlega fyrir góðan dag!

 

Bjarney Sif Ægisdóttir

Greta Jessen

Henný Sigurjónsdóttir

Hjördís Bára Gestsdóttir

Ragnhildur Ísleifs Ólafsdóttir

 

 

Miðvikudagur, 23. nóvember 2016 - 11:00