Grein eftir Ágústu Ingþórsdóttur

Grein eftir Ágústu Ingþórsdóttur, sem birtist í Morgunblaðinu 12. desember sl.

Gagnsemi náms- og starfsráðgjafar fyrir farsælt náms- og starfsval hefur verið viðfangsefni margra rannsókna. Niðurstöður hafa sýnt að nemendur sem hafa fengið náms- og starfsráðgjöf eru líklegri til að hafa meiri metnað og ljúka frekar námi en þeir sem ekki fengu slíka ráðgjöf. Einnig eru þeir líklegri til að verða færari í að taka ákvarðanir um nám og störf og haldast frekar í þeim störfum sem þeir velja sér. Að auki hefur komið í ljós að ungt fólk sem hefur leitað til náms- og starfsráðgjafa hefur meiri trú á eigin hæfni til náms, nær betri árangri í námi og á auðveldara með náms- og starfsval. 
Foreldrar og nánasta fjölskylda unglings eru miklir áhrifavaldar á náms- og starfsval og aðfara þess. Það hefur sýnt sig að foreldrar eru óöruggir í að aðstoða börn sín við náms- og starfsval. Rannsóknir sýna að foreldrar telja náms- og starfsráðgjafa geta veitt bestar upplýsingar um nám og störf. Náms- og starfsráðgjafar eru í lykilhlutverki við að leiðbeina foreldrum og öðrum uppeldisaðilum við náms- og starfsval nemenda. 
Ný lög um náms- og starfsráðgjafa voru samþykkt á Alþingi 30. mars síðastliðinn. Þar er starfsheitið náms- og starfsráðgjafi lögverndað. Með lögverndun starfsheitisins eru ákveðin gæði þjónustu tryggð, hagsmunum nemenda sinnt og mikilvæg sér- og fagþekking skilar sér inn í menntakerfið. Sá sem leitar aðstoðar náms- og starfsráðgjafa getur í skjóli lögverndunar verið þess fullviss að sá sem þjónustuna veitir hafi tilskilda menntun og fagþekkingu. Með lögunum er verið að huga að heill nemenda og þeirra er njóta þjónustu náms- og starfsráðgjafa jafnframt því að tryggja fagleg vinnubrögð stéttarinnar, auk þess sem náms- og starfsráðgjafar og fagið sjálft getur stuðlað að öflugri tengingu milli skóla og atvinnulífs. 
Náms- og starfsráðgjafar starfa m.a. í skólum, í fyrirtækjum og á atvinnumiðlunum. Starf náms- og starfsráðgjafa byggist að grunni til á því sameiginlega markmiði að stuðla að velferð einstaklinga með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Markmið náms- og starfsráðgjafar er að efla vitund einstaklinga um viðhorf sín, áhuga og hæfileika þannig að þeir fái notið sín í námi og starfi. Fagleg þekking og vinnubrögð liggja að baki náms- og starfsráðgjöf og starfsheitið náms- og starfsráðgjafi vísar til þess að sá hinn sami veitir faglega ráðgjöf á grundvelli sértækrar menntunar sinnar. Meginverkefni náms- og starfsráðgjafa í grunn- og framhaldsskólum er að aðstoða nemendur við náms- og starfsval og veita ráðgjöf meðan á námi stendur. Náms- og starfsrágjafi er trúnaðarmaður og talsmaður nemandans. 
Mikilvægt er að allir nemendur hafi aðgang að þjónustu náms- og starfsráðgjafa í sínum skóla og að sérþekking náms- og starfsráðgjafa skili sér að fullu inn í grunn- og framhaldsskóla landsins. Með nýjum lögum um náms- og starfsráðgjafa eru ákvæði um náms- og starfsráðgjafa tekin upp í löggjöf um grunnskóla og framhaldsskóla. Á þann hátt er tryggt að einungis þeir sem uppfylla lagaskilyrði eigi kost á að sinna náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum landsins. 
Eldri löggjöf um grunnskóla og framhaldsskóla bar þess merki að starfsheitið náms- og starfsráðgjafi var ekki lögverndað og því var ótryggt að fagleg náms- og starfsráðgjöf væri til staðar í skólum landsins. Þær upplýsingar sem nefnd um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum (2008) hafði um náms- og starfsráðgjöf hér á landi bentu því miður til þess að sá undirbúningur sem íslenskir nemendur fá í náms- og starfsvali innan skólanna sé allsendis ófullnægjandi. Þetta kemur m.a. fram í því að náms- og starfsfræðsla er í boði í um fjórðungi grunn- og framhaldsskóla og ekkert heildstætt, hlutlaust upplýsingakerfi um nám og störf er til á Íslandi. Líklegasta skýringin á þessu ástandi er að hér á landi hefur okkur skort stefnu og þar af leiðandi umgjörð utan um þær aðgerðir sem gera þennan undirbúning að náms- og starfsvali markvissari. Það má jafnvel fullyrða að við þessar aðstæður sé það rökrétt að svo margir nemendur falli brott úr framhaldsskólum sem raun ber vitni. 
Nú ber svo við að íslensk menntamálayfirvöld hafa nýlega fest í lög það markmið að allir grunn- og framhaldsskólanemendur eigi rétt á náms- og starfsráðgjöf. Ef þetta markmið á að nást er ljóst að endurskipulagningar er þörf í náms- og starfsráðgjöf í skólakerfinu. 
Besta leiðin til að hefja slíka endurskipulagningu er að kortleggja það sem gert er og skipuleggja hver framkvæmdaskrefin eru í átt að þeim markmiðum sem stefnt er að. Því er það ein megintillaga nefndarinnar að menntamálaráðuneytið beiti sér fyrir rannsókn á árangri náms- og starfsráðgjafar og marki stefnu í málaflokknum.

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, Ágústa E. Ingþórsdóttir og Sigríður Bílddal. (2008). Skýrsla nefndar um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum sem úrræðis gegn brottfalli nemenda, sjá hér.

Mánudagur, 14. desember 2009 - 14:45