40 ár frá upphafi kennslu í almennum þjóðfélagsfræðum

Afmælishátíð við Háskóla Íslands fimmtudaginn 2. desember: 40 ár frá upphafi kennslu í almennum þjóðfélagsfræðum Í Odda 101 frá 16 til 18. 
Um þessar mundir eru 40 ár frá því að kennsla í almennum þjóðfélagsfræðum hófst við Háskóla Íslands. Árið 1976 urðu þær greinar sem um var að ræða – félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði – hluti af Félagsvísindadeild sem þá var stofnuð. Í tilefni afmælisins hafa Félags- og mannvísindadeild og Stjórnmálafræðideild ákveðið að efna til hátíðar. Nú er þess einnig minnst að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands er 25 ára, 25 ár eru liðin frá því að kennsla í þjóðfræði hófst og 20 ár eru frá upphafi kennslu í náms- og starfsráðgjöf. Afmælishátíðin verður haldin fimmtudaginn 2. desember n.k. frá kl. 16 til 18 og fer hún fram í Odda og á Háskólatorgi.

Kennsla og rannsóknir í svonefndum almennum þjóðfélagsfræðum hófust í kjölfar þjóðfélagsumróts og stúdentamótmæla og ruddu síðan braut fyrir fjölþætta flóru félagsvísinda á vettvangi Háskóla Íslands. Áhrifa þessarar þróunar gætir víða í íslensku samfélagi. Á afmælishátíðinni verður litið yfir farinn veg og hugað að stöðu félagsvísinda í samtímanum, m.a. hugsanlegum hliðstæðum hrunsins sem nú skekur samfélagið og „68 uppreisnarinnar.“ Hvað hafa félagsvísindin lagt af mörkum, hversu vel hefur tekist til og hvert er hlutverk þessara fræða í dag?

Dagskrá:
Formleg dagskrá verður í Odda 101 og hefst hún kl. 16. Flutt verða þrjú stutt erindi:
        Þórólfur Þórlindsson, prófessor í félagsfræði: Upphaf kennslu í félagsvísindum og staða fræðanna,  
        Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafns Íslands: Viðbrögð við félagsvísindum, hlutverk þeirra og ímynd,
        Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar: Niðurstöður nýrrar könnunar á viðhorfum til mótmæla.

Að erindum loknum verða pallborðsumræður með þátttöku úr sal. Umræðum stjórnar Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, dósent í náms- og starfsráðgjöf. Aðrir þátttakendur verða Gestur Guðmundsson, prófessor í félagsfræði, Haraldur Ólafsson, prófessor emeritus í mannfræði, Hrafnhildur Tómasdóttir, verkefnisstjóri átaksins “Ungt fólk til athafna” og Kristinn Schram, forstöðumaður Þjóðfræðistofu á Hólmavík.

Þá flytur Jóhannes Kristjánsson, sem á árum áður stundaði nám í þjóðfélagsfræðum, gamanmál.

Þegar þessari formlegu dagskrá verður lokið verður gengið til Háskólatorgs þar sem bornar verða fram veitingar í boði Félagsvísindasviðs, Félags- og mannvísindadeildar og Stjórnmálafræðideildar.

Allir velkomnir.

 

Miðvikudagur, 10. nóvember 2010 - 20:15