Viðurkenning fyrir vel unnin störf

Jónína Kárdal náms- og starfsráðgjafi við Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands hlaut viðurkenningu fyrir störf sín í þágu fagstéttarinnar á Degi náms- og starfsráðgjafar sem var haldinn hátíðlegur í fimmta sinn þann 20. október síðastliðinn. Frá því að Dagur náms- og starfsráðgjafar var haldinn hátíðlegur fyrir fimm árum síðan hafa nokkrir náms- og starfsráðgjafar fengið viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Í dag tilnefnum við Jónínu Ólafsdóttur Kárdal. Jónína hefur verið ötull félagsmaður frá því að hún útskrifaðist sem náms- og starfsráðgjafi. Hún var formaður Félags náms- og starfsráðgjafa frá 2004-2006 og setti á þeim tíma í gang áhuga Alþingis á málefnum náms- og starfsráðgjafa og var ásamt fleirum í fararbroddi varðandi löggildinguna. Hún var og í undirbúningshópi við að móta siðareglur fyrir félagið, var í lykilhlutverki í þróun fjarnáms náms- og starfsráðgjafa og hefur haldið námskeið um notkun netsins fyrir náms- og starfsráðgjafa o.fl.“Jónína hefur starfað við Náms- og starfsráðgjöf HÍ frá árinu 1999 og tekið virkan þátt í uppbyggingu NSHÍ. Hún lauk viðbótardiplómu í námsráðgjöf frá Háskóla Íslands 1995 og meistaragráðu í ráðgjafarsálfræði (Counseling & Student personnel Psychology) frá Háskólanum í Minnesota, USA 1999. Hún hefur haft umsjón með starfsþjálfun nema í náms- og starfsráðgjöf. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hönd NSHÍ við námsbrautina í náms- og starfsráðgjöf í félags- og mannvísindadeild. Jónína hefur einnig kennt við námsbrautina sem og kennt námskeið í viðtalstækni bæði fyrir starfsfólk HÍ og aðrar fagstéttir.Jónína hefur tekið virkan þátt í að bæta móttöku nýnema og erlendra stúdenta við Háskóla Íslands og koma á fót svokölluðum Nýnemadögum. Hún hefur tekið þátt í Evrópuverkefnum Leonardo da Vinci sem NSHÍ hefur verið aðili að og má þá nefna SPIDERWEB og DARE 2.

Miðvikudagur, 10. nóvember 2010 - 20:30