Uppskeruhátíð námsbrautar í náms- og starfsráðgjöf í Háskóla Íslands

Hátíðin verður miðvikudaginn 9. september kl. 13:00-16:00 í Námunni, Endurmenntun Háskóla Íslands, Dunhaga 7.

Á uppskeruhátíðinni verða kynntar niðurstöður níu nýrra rannsókna á sviði náms- og starfsráðgjafar. Þar má nefna rannsóknir á aðlögunarhæfni á starfsferli, náms og starfsval blindar og sjónskertra, aðlögun og notkun nýrra og erlendra matstækja og aðferða sem nota má  í ráðgjöf með börnum og fullorðnum. Einnig verður fjallað um niðurstöður rannsókna á reynslu karla af raunfærnimati og hindranir á leið í nám að nýju, brottfall háskólanema og þjónustu við þá sem þurfa að takast á við skerta starfsgetu. Kynnt verður nýleg rannsókn á starfsánægju náms- og starfsráðgjafa.

Flestir náms- og starfsráðgjafar hafa hlotið menntun sína hérlendis við námsbraut í náms- og starfsráðgjöf sem starfrækt er við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Síðastliðin ár hefur einnig verið boðið upp á fjarnám í greininn og hefur náms- og starfsráðgjöf á landsbyggðinni eflst verulega í kjölfarið. Námið stendur nú á tímamótum, þar sem næsta vetur verður boðið uppá heildstætt tveggja ára meistaranám í stað diplómanáms áður. Þetta er gert til að mæta vaxandi kröfum um fagmennsku í náms og starfsráðgjöf sem endurspeglast í nýlegum lögum um lögverndun starfsheitis náms- og starfsráðgjafa. 

Rannsóknir nemenda og kennara við námsbrautin leika lykilhlutverk í eflingu þekkingargrunns greinarinnar og styrkja náms- og starfsráðgjafa í faglegu starfi. Við aðstæðurnar sem nú ríkja í íslensku samfélagi, með auknu atvinnuleysi og niðurskurði í menntakerfinu, er enn mikilvægara en áður að hver og einn eigi kost á faglegri  leiðsögn um þau úrræði sem í boði eru á erfiðum tímum.

Nýbakaðir meistarar leggja samfélaginu lið með rannsóknum sínum og aukinni þekkingu á þörfum fólks og hvað gagnast best við náms- og starfsráðgjöf í íslensku samfélagi.

Uppskeruhátíðin er öllum opin og aðgangur er ókeypis.

Miðvikudagur, 9. september 2009 - 10:00