Undirbúningur vetrarstarfs!

Það er óhætt að segja að það sé í mörg horn að líta hjá okkur náms- og starfsráðgjöfum þegar sumarleyfum lýkur, þegar allt fer á fulla ferð og verkefnin mörg.

Nú er starf félagsins í fullum gír og fyrir viku síðan hittust allar nefndir og ráð og gerðu starfsáætlanir fyrir veturinn. Það er því mjög margt áhugavert framundan í vetur.

Fulltrúar nefnda og ráða mættu, bæði í stað og fjar.  Þetta voru fulltrúar frá upplýsinga- og kynningarnefnd, fræðslunefnd, fagráð framhaldsskóla, kjararáð, fagráð atvinnulífsins og siðanefnd.

Einn af stóru viðburðunum í vetur er ráðstefnan okkar : Stolt og sameinuð stétt í sókn. Hún verður haldin 10. og 11. nóvember á Akureyri. Skráning fer vel af stað og allt félagsfólk er hvatt til að mæta. Það er svo nærandi og hvetjandi að hittast. Það er okkur öllum nauðsynlegt að sækja endurmenntun en ekki síður mikilvægt að hitta kollega og bera saman bækur.

Í síðustu viku var haldinn fundur um skipulagningu viðburðarins Mín framtíð. Þar verður Íslandsmeistarmótið í iðn- og verkgreinum haldið og um leið kynningar á námsleiðum á framhaldsskólastigi. Þessi viðburður mun fara fram 16.-18. mars í Laugardalshöll. Það krefst mikil undirbúnings og skipulagningar að halda svona viðburð og gott að sjá hvað allt er komið vel af stað.

https://namogstorf.is/min-framtid/

 

Fimmtudagur, 29. september 2022 - 10:00