Samstarf vettvangs og náms - lykill að farsælli fagþróun

Þriðjudaginn 14. desember kl. 16:30-17:30 munu Sif Einarsdóttir, dósent í náms- og starfsráðgjöf,  og Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi við NSHÍ halda erindi á fyrirlestraröð í tilefni af 20 ára afmæli námsbrautar í náms- og starfsráðgjöf. Erindið ber heitið Samstarf vettvangs og náms - lykill að farsælli fagþróun.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um samstarf námsbrautar í náms- og starfsráðgjöf og fagaðila sem starfa á vettvangi í fortíð, nútíð og framtíð. Samstarfinu verður lýst og lykilhlutverki þess í fagþróun (e. professional development) náms- og starfsráðgjafar sem sérfræðistéttar. Fjallað verður um hvernig fagleg náms- og starfsráðgjöf spratt upp úr grasrótarstarfi Félags náms- og starfsráðgjafa. Með stofnun námsbrautarinnar árið 1990 var annarri af grundvallarstoðum fagsins komið á fót. Síðan þá hefur þróunin verið hröð, fjölgað hefur í fagstéttinni og náms- og starfsráðgjafar starfa á fjölbreyttum vettvangi með fólki á öllum aldri. Nú í kjölfar nýfenginnar löggildingar og endurskoðunar námsins standa vettvangur og námsbraut frammi fyrir ögrandi samstarfsverkefni með aukinni þjálfun nema á vettvangi. Í fyrirlestrinum verður hugmyndafræði og hlutverki starfsþjálfunar í menntun nema lýst, ásamt ávinningi og mikilvægi fyrir áframhaldandi fagþróun og eflingu náms- og starfsráðgjafar. Að lokum verður skyggnst til framtíðar, velt upp hugmyndum og efnt til umræðu um framtíðartækifæri í samstarfi vettvangs og námsbrautar. Varpað verður fram spurningum um það hvernig námsbrautin og þeir sem starfa á vettvangi geti fundið samstarfi sínu enn betri farveg til að bæta þjónustu við þann fjölbreytta hóp sem lögum samkvæmt á rétt á ráðgjöf um nám og störf. Litið verður sérstaklega til þeirra möguleika sem felast í alþjóðlegu samstarfi, rannsóknarverkefnum nema og þróunarstarfi. 

Fyrirlesturinn fer fram í Lögbergi stofu 101 og er öllum opinn.

Fimmtudagur, 2. desember 2010 - 19:15