SAENS hlaut styrk úr starfsmenntasjóði

Nýlega var úthlutað styrkjum úr starfsmenntasjóði félags- og tryggingamálaráðuneytisins: www.starfsmenntarad.is. Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf sótti um styrk og fékk úthlutað 1,7 milljón fyrir verkefnið: Upplýsingakerfi og vefráðgjöf um nám og störf; þarfagreining og framkvæmdaráætlun. Markmiðið með verkefninu er að kortleggja stöðu, undirbúa framkvæmd og þróa samstarf um gerð á rafrænu upplýsinga- og ráðgjafakerfi um nám og störf. 

Kerfi sem þessi eru til í flestum löndum í kringum okkur og eru nauðsynleg til að tryggja atvinnuleitendum greiðan aðgang að upplýsingum um nám og störf. Þá eru slík upplýsinga- og ráðgjafarkerfi ein megin forsenda þess að unnt sé að velja nám og störf við hæfi. Starfsskipti eru á bilinu 5-10 á starfsævinni og í aðfara slíkra breytinga er mikilvægt að eiga aðgang að upplýsingum um þá kosti sem bjóðast í námi og störfum.

Annað markmið er að byggja á því íslenska efni um nám og störf sem til er á netinu og efla samstarf þeirra sem mesta þekkingu og reynslu hafa á þessu sviði. Til að vel takist til við uppbyggingu á öflugu upplýsinga- og ráðgjafakerfi þarf að samræma og auka samvinnu margra. Kerfið mun gagnast fólki í atvinnuleit sérstaklega vel þar sem það getur nálgast upplýsingar, fræðslu, hvatningu og ráðgjöf á einum stað. Markhópurinn er fólk sem er að aðlagast að breytingum á náms- og starfsferli en þegar upplýsingakerfið verður orðið að veruleika mun það nýtast almenningi og auk þess mun það jafna stöðu fólks gagnvart upplýsingum um nám og störf.

 

Fimmtudagur, 11. nóvember 2010 - 20:30