Lög FNS

Lög Félags náms- og starfsráðgjafa

Með breytingum samþykktum á aðalfundi 12. maí 2021

 

 1. grein

Félagið heitir Félag náms- og starfsráðgjafa, skammstafað FNS, og er fagfélag náms- og starfsráðgjafa. Félagssvæði þess er landið allt. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. grein

Hlutverk félagsins er:

 1. að efla náms-og starfsráðgjöf, samheldni og tengsl félagsmanna ásamt fag- og stéttarvitund íslenskra náms- og starfsráðgjafa

 2. að gæta hagsmuna náms- og starfsráðgjafa við gerð kjarasamninga í stéttarfélögum þeirra þar sem það á við

 3. að gæta faglegra og félagslegra hagsmuna náms- og starfsráðgjafa gagnvart innlendum og erlendum aðilum

 4. að efla faglegt starf og  stuðla að endurmenntun félagsmanna

 5. að efla rannsóknir á sviði náms- og starfsráðgjafar

 6. að efla samstarf við erlend félög náms- og starfsráðgjafa

 

 1. grein

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

 1. Vinna starfi náms- og starfsráðgjafa brautargengi í gegnum ráðuneyti mennta- og félagsmála, sveitarstjórnir, samtök kennara, samtök atvinnulífsins og í samstarfi við önnur félagasamtök.

 2. Efla umfjöllun um starfsvettvang náms- og starfsráðgjafa með opinberum greinaskrifum, þátttöku í nefndastörfum og öðru faglegu samstarfi þar sem fagmennsku náms- og starfsráðgjafa er þörf.

 3. Endurskoða reglulega siðareglur FNS og viðhalda umræðu um siðferðileg álitamál.

 4. Efna til almennra funda svo og fræðslu- og kynningarfunda um málefni stéttarinnar.

 5. Halda úti öflugri heimasíðu með upplýsingum um FNS, fréttum af starfsemi félagsins og aðgengi að tenglum og öðru því efni sem gagnast við náms- og starfsráðgjöf.

 6. Halda reglulega námskeið og fræðslufundi fyrir félagsmenn og veita upplýsingar um gagnleg námskeið og ráðstefnur innan lands sem utan.

 

4. grein

Félagsmenn í Félagi náms- og starfsráðgjafa:

 1. Fullgildir félagsmenn geta þeir einir verið sem hafa lokið námi í náms-og starfsráðgjöf sem mennta- og menningarmálaráðuneytið samþykkir og hafa jafnframt löggildingu starfsheitisins frá sama ráðuneyti.

 2. Við 67 ára aldur fellur félagsgjald niður en félagsmenn geta áfram verið fullgildir meðlimir.

 3. Þeir sem hafa leyfi mennta-og menningarmálaráðherra til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa enda þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 35/2009 geta sótt um aukaaðild.

 

Full aðild að FNS gefur réttindi til að gegna ábyrgðarstörfum innan félagsins og kosningarétt á aðalfundi og félagsfundum.

 

Þeir félagsmenn sem hafa nú þegar fulla aðild að félaginu halda henni.

 

Inntökubeiðni í Félag náms- og starfsráðgjafa skal vera skrifleg og skulu fylgja með upplýsingar um prófgráður, starfsheiti og vinnustað.

Gjaldkeri félagsins sér um innheimtu félagsgjalda í umboði stjórnar. Stjórn FNS sér um félagaskrá og inntöku nýrra félagsmanna.

 

5. grein

Stjórn félagsins getur vikið manni úr félaginu vinni hann gegn hagsmunum þess og/eða gerist brotlegur í starfi skv. landslögum. Að virtum andmælarétti félagsmanns til stjórnar varðandi brottvikningu úr félaginu getur viðkomandi borið ákvörðun stjórnar undir almennan félagsfund til að fá ákvörðunina fellda úr gildi eða til að fá henni breytt.

Eigi félagsmaður vangoldin félagsgjöld eftir að eindaga lýkur fellur hann út af félagaská.

 

6. grein

Árgjald félagsmanna skal ákvarðað á aðalfundi án tillits til fundarsóknar. Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31.desember.

 

7. grein

Aðalfundur Félags náms- og starfsráðgjafa er haldinn í apríl/maí ár hvert. Hann hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Til hans skal boðað með viku fyrirvara hið skemmsta og er hann þá lögmætur. Afl atkvæða ræður úrslitum mála.

 

8. grein

Dagskrá aðalfundar skal vera:

    Skýrsla stjórnar
    Ársreikningur félagsins yfirfarinn af löggiltum endurskoðanda
    Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins
    Lagabreytingar
    Nefndastörf
    Umræður og afgreiðsla mála
    Kosning stjórnar, varastjórnar, fræðslunefndar, kjaranefndar, siðanefndar, fulltrúa

    norræns samstarfs og fagráða.
    Önnur mál.

 

9. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skal senda stjórn minnst tveimur vikum fyrir aðalfund og skal stjórnin senda þær til félagsmanna með fundarboði. Til lagabreytinga þarf ¾ atkvæða fundarmanna.

 

10. grein

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara. Formann skal kjósa sérstaklega. Stjórn félagsins skiptir með sér verkum. Skipa skal í hlutverk gjaldkera, ritara, upplýsinga/vefstjóra og varaformanns hið minnsta. Við stjórnarkjör skal tryggt að ekki gangi fleiri en þrír úr stjórn í einu. Þegar formannsskipti verða er fráfarandi formaður ráðgefandi aðili fyrir stjórn fram til næstu áramóta. Ekki er heimilt að sitja lengur í stjórn en 4 ár í senn. Formaður getur setið í því embætti í 4 ár óháð fyrri stjórnarsetu.

 

11. grein

Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess. Stjórn félagsins er heimilt að skipa í nefndir, sem starfa í umboði stjórnar.

 

12. grein

Fulltrúi í norrænu samstarfi, nefndir og fagráð FNS.

 

Fræðslunefnd skal jafnan starfrækt í FNS. Hún er skipuð fimm félagsmönnum. Starfssvið hennar er að vinna að fræðslu- og endurmenntunarmálum í samráði við stjórn félagsins.

 

Siðanefnd skal jafnan starfrækt í FNS. Hlutverk hennar er að stýra umræðu um siðareglur og siðferðileg álitamál innan náms- og starfsráðgjafar. Nefndin skal skipuð fjórum fulltrúum þar af einum úr stjórn félagsins.

Kjaranefnd skal jafnan starfrækt í FNS. Hlutverk hennar er að taka saman upplýsingar um kjaramál náms- og starfsráðgjafa og upplýsa stjórn og félagsmenn FNS um hagsmunamál í kjarasamningum. Nefndarmenn eru einnig tengiliðir, fyrir hönd stjórnar FNS, við þau stéttarfélög sem að félagsmenn FNS eru aðilar að.

 

Fjögur fagráð skulu jafnan starfrækt í FNS. Hvert þeirra er skipað þremur félagsmönnum og þar af skal leitast við að einn í hverju fagráði sitji í stjórn. Fagráð skulu skipuleggja a.m.k. einn viðburð á starfsári og skapa samráðsvettvang fyrir náms- og starfsráðgjafa. Hlutverk fagráða er að vera stjórn félagsins til ráðgjafar um fagleg málefni og störf náms- og starfsráðgjafa á skólastigunum þremur (grunn-, framhalds- og háskóla), í fyrirtækjum og á atvinnumiðlunum.

 

Æskilegt er að fulltrúi FNS í norrænu samstarf sitji í stjórn félagsins. Hlutverk fulltrúa er að upplýsa félagsmenn um það sem er á döfinni hverju sinni. Honum ber einnig að upplýsa stjórn Norrænu samtakanna um starfsemi FNS. 

 

Ekki er heimilt að sitja lengur í nefndum og fagráðum en 4 ár í senn. Hið sama gildir um fulltrúa í norrænu samstarfi. Nefndir og ráð skulu, í lok starfsárs, skila greinagerð til stjórnar FNS um starf nefndarinnar/ráðsins.

 

Upplýsinga- og kynninganefnd skal jafnan starfrækt í FNS. Hlutverk hennar er að hafa umsjón með heimasíðu félagsins og hvetja félagsmenn til þess að birta þar efni er tengist störfum náms- og starfsráðgjafa. Hún skal einnig hvetja til og koma að hvers kyns markaðs- og kynningarmálum félagsins með það að leiðarsljósi að auka skilning almennings á eðli og umfangi náms- og starfsráðgjafar.

 

Uppstillinganefnd skal skipa fyrir aðalfund FNS. Hún óskar eftir tilnefningum í trúnaðarstörf, nefndir og ráð félagsins. Félagsmenn geta boðið sig fram til slíkra starfa og fer kosning fram á aðalfundi ef með þarf.

 

13. grein

Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og með eins dags fyrirvara, ef unnt er. Stjórnarfundur er ályktunarfær, ef þrír stjórnarmenn sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Við jöfn atkvæði ræður atkvæði formanns úrslitum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

14. grein

Nú kemur fram tillaga um það, að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytingar, sbr.10.gr. Eignir félagsins, ef einhverjar eru, skulu þá renna til líknar- eða góðgerðarstarfsemi.