Kveðja frá Ágústu E. Ingþórsdóttur, fyrrverandi formanni

Kæru félagsmenn

Samkvæmt lögum Félags náms- og starfsráðgjafa með breytingum samþykktum á aðalfundi 30. apríl 2008 er ekki heimilt að sitja lengur í stjórn félagsins en 4 ár í senn. Ég læt því nú af störfum sem formaður félagsins, eftir 4 ára setu í stjórn, 1 ár sem meðstjórnandi og 3 ár sem formaður en verð eins lög FNS segja til um ráðgefandi aðili fyrir stjórn FNS fram að áramótum. Baráttan fyrir lögverndun starfsheitis okkar hefur verið eitt af meginviðfangsefnum mínum sem formanns síðustu 3 árin - þó mest hafi reynt á þá vinnu á þessu starfsári. Ég tel að mörg önnur mikilvæg mál hafi einnig náðst í gegn á þessum tíma. Það hafa verið forréttindi að vinna að eflingu náms- og starfsráðgjafar sem formaður félagsins í samvinnu við félagsmenn og aðra sem hafa tengst okkar málaflokki. Það er vissa mín að nýr formaður félagsins muni leiða starfið farsællega og halda vel utan um hagsmuni okkar og kjör.

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í dag var Björg Kristjánsdóttir, náms- og starfsráðgjafi við Menntaskólann við Hamrahlíð, kjörin nýr formaður félagsins. Mig langar að óska nýjum formanni okkar innilega til hamingju með kosninguna og óska henni velfarnaðar í starfi sínu.

Ég vil þakka ykkur öllum fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum, stjórnarmönnum og þeim sem starfað hafa í nefndum og fagráðum fyrir vel unnin störf í þágu félagsins sem og hinum almenna félagsmanni. Mörg verkefni eru framundan og félagið er að mínu mati vettvangur til að skapa bæði félagsmönnum og þeim sem til þeirra leita farsæla framtíð.

Með kærri kveðju, 
Ágústa Elín Ingþórsdóttir

Miðvikudagur, 29. apríl 2009 - 11:15