Félag náms- og starfsráðgjafa hlýtur styrk, að upphæð kr. 500.000, úr Samfélagssjóði Landsbankans fyrir verkefnið Náms- og starfsráðgjöf fyrir alla.
Í fréttatilkynningu frá Landsbankanum segir að samfélagsstyrkjum að upphæð 15 milljónum króna var úthlutað úr Samfélagssjóði Landsbankans þriðjudaginn 19. desember sl. og hlutu 36 verkefni styrki af 500 umsóknum og eru verkefnin afar fjölbreytt og gagnast fólki á öllum aldri og víða um land.
Félag náms- og starfsráðgjafa vill gefa út kynningar- og markefni um náms- og starfsráðgjöf og náms- og starfsfræðslu á tveimur erlendum tungumálum, ensku og pólsku. Markhópurinn eru grunn- og framhaldsskólanemendur sem eru með fjölbreyttan tungumála- og menningarlegan bakgrunn. Með slíku efni er sýnileiki þessarar sértæku þjónustu, náms- og starfsráðgjöf, til þessa hóps efldur og hægt að nálgast hann á betri forsendum en ella. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að börn og ungmenni af erlendum uppruna sækja t.d. síður framhaldsskólamenntun sem getur haft afleiðingar á atvinnuþátttöku síðar meir. Með útgáfu kynningar- og markefnis sem nær til fólks með fjölbreyttan tungumála- og menningarlegan bakgrunn er einnig verið að styðja við jöfn tækifæri til náms og aðgengi að atvinnutækifærum og stuðla að auknu félagslegu réttlæti.
Í umsókn félagsins segir um samfélagslegan ávinning verkefnisins:
Það liggur oftast fyrir hverjum og einum að afla sér menntunar og taka sér fyrir hendur margvísleg störf.
Ávinningur aðgengis að náms- og starfsráðgjöf og náms- og starfsfræðslu felst í færni einstaklingsins til að stýra eigin náms- og starfsferli, virkri þátttöku í samfélaginu og vinnumarkaði og vera fært um að takast á áskoranir samtímans og framtíðar. Með útgáfu FNS á nýju kynningar- og markefni á fleiri tungumálum en íslensku er verið að nálgast mikilvægan framtíðarmannauð og styrkja einstaklinginn til að stýra sínum náms- og starfsferli og nýta tækifæri sem íslenskt samfélag býður upp á.
Félagið vill færa Samfélagssjóði Landsbankans og dómnefnd hennar kærar þakkir fyrir styrkveitinguna!
Myndir: www.landsbankinn.is