Ályktun frá Félagi náms- og starfsráðgjafa

Á almennum félagsfundi FNS þann 5. febrúar var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Félagsmenn FNS lýsa yfir áhyggjum af stöðu efnahags- og atvinnumála.

Félagsmenn FNS hafa að undanförnu fundið fyrir aukinni aðsókn í ráðgjöf. Náms- og starfsráðgjafar búa yfir sérþekkingu sem gerir þeim kleift að aðstoða einstaklinga við að takast á við breytingar á starfshögum eða atvinnumissi. Þeir standa einnig vörð um velferð ungs fólks í skólum og undirbúa nemendur undir næstu skref í námi og starfi, t.d. með skipulegri náms- og starfsfræðslu. Félagsmenn FNS beina því til stjórnvalda að gera allt sem þau geta til að tryggja góðan aðbúnað barna og ungmenna, að niðurskurður útgjalda hjá ríki og sveitarfélögum bitni sem minnst á þeim og að fagleg náms- og starfsráðgjöf við þau verði efld.

Félagsmenn FNS skora á stjórnvöld að grípa til enn frekari aðgerða, til að koma í veg fyrir vaxandi atvinnuleysi. Atvinnumissir er gríðarlegt áfall fyrir einstaklinga, heimili og samfélagið í heild. Það er sjálfsagt réttindamál að allir sem fyrir því verða eigi aðgang að faglegri náms- og starfsráðgjöf.

Við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku samfélagi er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að styrkja faglega náms- og starfsráðgjöf og eru ríki og sveitarfélög því hvött til þess að marka skýra stefnu í málaflokknum.

Laugardagur, 7. febrúar 2009 - 8:00