Viðurkenning á Degi náms- og starfsráðgjafar

Í ár hlaut Ólafur Haraldsson náms- og starfsráðgjafi við Fjölbrautarskóla Vesturlands viðurkenningu félagsins fyrir störf  í þágu náms- og starfsráðgjafar. Upphaf viðurkenningarinnar má rekja til ársins 2006 þegar fyrsti Dagur náms- og starfsráðgjafar var haldinn hátíðlegur.

Hér á eftir fer ávarp Bjargar Kristjánsdóttur formanns FNS af þessu tilefni:

Frá því að dagur náms-og starfsráðgjafar var haldin hátíðlegur hafa allnokkrir félagsmenn verið heiðraðir og í dag munum við heiðra enn einn félagsmann en það er Ólafur Haraldsson náms-og starfsráðgjafi við Fjölbrautarskóla Vesturlands, Akranesi.

Ólafur var ráðinn námsráðgjafi haustið 1988 og gekk þá strax í FNS.  Um 1990 var hann kosinn í stjórn FNS. Með honum í stjórn voru Einar Sveinn Árnason og Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir. Ólafur var þar ritari. Það var á starfstíma hans í stjórn sem nafni félagsins var breytt úr Félagi námsráðgjafa í Félag náms-og starfsráðgjafa. Árið 2001 fór Ólafur til Englands í nám og lauk mastersgráðu í guidance og counselling frá Newcastle University í desember 2002.

Árið 2007 - 2011 var Ólafur í varastjórn FNS.  Frá 2009 hélt hann utan um félagatal FNS í samstarfi við gjaldkera. Hann fylgdi úr hlaði nýrri heimasíðu FNS sem var opnuð á aðalfundi 2010 og hafði umsjón með henni til haustsins 2012. Það var ómældur tími sem fór í gerð þessarar nýju heimasíðu og var Ólafur sá sem gætti þess að allt gengi  að óskum.

Hann hefur reynst ötull félagsmaður og axlað mörg trúnaðarstörf.  Það er mér mikill heiður Ólafur að afhenda þér þessa viðurkenningu.

Eftirfarandi hafa hlotið viðurkenningu FNS:
2012  Ólafur Haraldsson
2011   Ingveldur Sveinbjörnsdóttir
2010   Jónína Kárdal
2009   Ágústa Ingþórsdóttir
2008   Hrafnhildur Tómasdóttir 
2007   Sigrún Ágústsdóttir og Björg Birgisdóttir
2006   Dr. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir

Miðvikudagur, 7. nóvember 2012 - 10:30