Næstu skref?

Líkt og mörg ykkar vita hefur undanfarið eitt og hálft ár staðið yfir undirbúningur að vefgátt um nám og störf sem Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf  hefur unnið í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Upplýsinga- og ráðgjafarvefgáttin var hluti af IPA verkefninu Þróun raunfærnimats til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun sem Fræðslumiðstöðin stendur að. 

Vinna við vefgáttina er nú meira en hálfnuð, umfangsmikið undirbúningsstarf  að baki og komið að uppsetningu og  tæknivinnu. Hins vegar er  svo komið að Evrópusambandið hefur ákveðið að hætta styrkveitingu vegna slíkra verkefna þar sem hlé var gert á aðildarviðræðum við sambandið.

Vefgáttin er hugsuð fyrir fullorðna með litla formlega menntun en við þróun hennar var haft að leiðarljósi að í framtíðinni megi laga hana að þörfum fleiri hópa svo sem nemenda á öllum skólastigum auk ráðgjafa í skólum og atvinnulífi. Megin tilgangur vefgáttarinnar er að jafna aðgengi fólks að hlutlausum upplýsingum um nám og störf  og veita stuðning á starfsferli í formi ráðgjafar og fræðsluefnis en einnig að vera þeim hvatning sem alla jafna myndu ekki leita persónulegrar náms- og starfsráðgjafar.  Ætlunin er að  hægt sé að finna lýsingar á störfum og námi þeim tengdum, kannanir á áhuga, starfsgildum og leikni, sjálfsmat á raunfærni  og annað náms- og starfsfræðslutengt efni. Eins var hugmyndin að boðið væri upp á aðgengi að náms- og starfsráðgjöfum og notendur hvattir til að nýta sér þá ráðgjöf.

Að svo stöddu eru næstu skref óljós  og tengjast  fjármögnun og vilja til að klára verkið.  Þar sem um gríðarlega spennandi tækifæri  fyrir náms- og starfsráðgjafa á Íslandi er að ræða  er mikilvægt að þeir séu upplýstir um þróun þessa verkefnis og taki þátt í umræðu um notkun  þessa tækis í náms- og starfsráðgjöf og  náms- og starfsfræðslu. Nú þarf byr í seglin!

Fimmtudagur, 6. febrúar 2014 - 16:00