Náms- og starfsráðgjafar heimsækja HÍ

Háskóli Íslands bauð náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum, þekkingarsetrum og símenntunarmiðstöðvum til fundar föstudaginn 6. febrúar. Um 50 ráðgjafar þekktust boðið en alls má reikna með að um 70 manns hafi sótt kynninguna.

Markmið fundarins var að efla tengsl og samstarf Háskóla Íslands og náms- og starfsráðgjafa og stuðla að því að framhaldsskólanemendur og aðrir sem hyggja á háskólanám hafi ætíð aðgang að nauðsynlegum upplýsingum við undirbúning náms við Háskóla Íslands.  

Skipulögð dagskrá hófst með ávarpi Jóns Atla Benediktssonar aðstoðarrektor vísinda og kennslu sem bauð gesti velkomna. Margvíslegar upplýsingar um Háskóla Íslands komu fram. Fulltrúar frá öllum fræðasviðum HÍ kynntu námsframboð sitt og nýjungar. Tveir kennarar kynntu nýstárlega kennsluhætti þar sem samfélagsmiðlar og tölvutækni kom til sögunnar. Fulltrúar stúdenta tóku til máls og lýstu stúdentalífinu ásamt því hvernig hægt er að hafa áhrif á háskólalífið og nám. Í lokin voru  umræður í hópum þar sem leitað var eftir hugmyndum fundargesta um hvernig best væri að haga samstarfi og upplýsingastreymi milli háskólans, framhaldsskólanna og annarra stofnana.

Dagskránni lauk með léttum veitingum og spjalli eins og náms- og starfsráðgjöfum er einum lagið.

Mánudagur, 9. febrúar 2015 - 19:45