Heiðursviðurkenningar FNS

Á degi náms- og starfsráðgjafar hlutu  heiðursviðurkenningu félagsins, þau Guðrún Helga Kristinsdóttir og Davíð S. Óskarsson. Ljóst er þau eru bæði  afar vel að þeirri viðurkenningu komin hvort tveggja vegna starfa þeirra fyrir félagið en ekki síður fyrir þátt sinn í uppbyggingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum.

Guðrún hefur starfað á grunnskólastigi og á þeim tíma lagt grunn að náms- og starfsráðgjöf í tveimur grunnskólum, Ártúnsskóla og Norðlingaskóla . Guðrún hefur verið ötul í eflingu náms- og starfsfræðslu á grunnskólastigi og er framlag hennar þar gífurlega mikilvægt. Hún hefur einnig unnið ýmis trúnaðarstörf fyrir hönd Félags náms- og starfsráðgjafa, setið í nefndum og ráðum og um árabil kennt MA nemum í náms- og starfsráðgjöf undirstöðuatriði við gerð áætlana í náms- og starfsráðgjöf.

Í tilnefningu sem barst um Guðrúnu segir m.a.

Guðrún  er mörgum góðum kostum prýdd.  Hún hefur styrka faglega sýn og hefur verið frumkvöðull í nýjum vinnubrögðum í náms- og starfsráðgjöf á grunnskólastigi. Henni er sérstaklega umhugað að vinnubrögð í náms- og starfsráðgjöf beri sem mestan og bestan árangur. Hún vandar verkin, er traust og áreiðanleg jafnt í starfi sem meðal starfsfélaga.

 

Davíð er einn af frumkvöðlunum í náms- og starfsráðgjöf á Íslandi og var á sínum tíma einn örfárra sem hafði menntað sig til starfsins.  Auk þess er hann einn fárra sem hefur starfað nær óslitið við fagið í hartnær 30 ár. Hann tók þátt í stofnun Félags íslenskra náms- og starfsráðgjafa eins og félagið hét þá og sat í stjórn þess um árabil.

Ferill Davíðs er glæsilegur. Hann lauk kennaraprófi árið 1979 og starfaði sem kennari í nokkur ár. 1983 fór hann til náms í Bandaríkjunum og nam þar til meistaragráðu, sálfræðilega ráðgjöf með áherslu á námsráðgjöf.   Frá árinu 1987 hefur Davíð verið náms- og starfsráðgjafi við Tækniskólann, áður Iðnskólann í Reykjavík,  en þó með viðkomu í Kanada, því  árið 1999 fór hann þangað í framhaldsnám og fékk þar m.a. þjálfun hjá sjálfum Norman Amundson.

Í tilnefningu um Davið segir m.a.

Davíð er fagmaður fram í fingurgóma. Hann hefur tekið marga nema í starfsþjálfun og verið öðrum fyrirmynd í starfi. Davíð  gefur aldrei eftir af faglegum kröfum.

Fimmtudagur, 7. nóvember 2013 - 16:00