Framhaldsskólakynning og Íslandsmót iðn- og verkgreina

Stór framhaldsskólakynning fór fram samhliða Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Kórnum í Kópavogi 6.-8. mars síðastliðinn. Þetta var í fyrsta sinn sem þetta fyrirkomulag er haft á framhaldsskólakynningum og að mörgu að hyggja í undirbúningnum enda búist við allt að sex þúsund grunnskólanemendum á svæðið á þessum þremur dögum. Nefnd var sett á laggirnar fyrir hönd FNS í tengslum við viðburðinn en hana skipuðu Sigurjóna Jónsdóttir, Hrönn Baldursdóttir ogInga Jóna Þórsdóttir. Þær stöllur unnu mikið og óeigingjarnt starf bæði við undirbúning og á kynningunni sjálfri og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir þeirra framlag, það er ómetanlegt. 

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa á svæðinu var veigamikið. Þeir voru í aðalhlutverkum í flestum framhaldsskólum við að kynna námsframboð og veita upplýsingar, grunnskólaráðgjafarnir sáu margir hverjir um að undirbúa sína nemendur fyrir heimsóknina og mættu með þeim á svæðið auk þess sem náms- og starfsráðgjafar og nemar í náms- og starfsráðgjöf sáu um að manna þau þrjú svæði sem FNS var úthlutað.

Margt var að sjá og skoða í Kórnum. Grunnskólanemendur höfðu gaman af því að fá sjálfir að spreyta sig á verkefnum og mynduðust víða raðir þar sem slíkt var í boði, einnig var mikil örtröð þar sem hægt var að fá eitthvað að smakka ;)

 

Undirbúningsnefndin útbjó ratleik til þess að ýta undir að nemendur færu sem víðast og spyrðu sem flestra spurninga. Margir nemendur tóku þátt í ratleiknum og skiluðu inn úrlausnum sem dregið var úr í dagslok og verðlaun veitt. Einnig gátu nemendur, og geta enn,  tekið þátt í verkefnasamkeppni sem felst í því að útbúa t.d. myndband eða skrifa ritgerð um efnið: Upplifun mín af því sem ég sá.  Úrlausnum má skila inn til 25.3. og eru vegleg verðlaun í boði.

Á FNS ,,stöðvunum“ var lagt upp úr því að gera náms- og starfsráðgjafa sem sýnilegasta og m.a. voru útbúin spjöld með heilræðum til nemenda og kveðju frá náms- og starfsráðgjöfum. Þetta mæltist vel fyrir bæði hjá ráðgjöfum og nemendum. Einnig voru útbúnir ,,bannerar“ með merki félagsins og fánar sem flaggað var í fánaborgum fyrir utan Kórinn. Allt þetta kostar sitt og var sótt um styrk til Evrópumiðstöðvar náms- og starfsráðgjafar sem veitti styrkinn góðfúslega og gerði okkur þ.a.l. kleift að leggja út í þennan kostnað. Við kunnum Evrópumiðstöðin bestu þakkir fyrir þeirra framlag.

Það er mat okkar að framkvæmd þessa verkefnis hafi tekist vel í heildina. Samstarf við Menntamálaráðuneytið og Verkiðn var mikið og gott sem og alla aðila sem að þessu komu, þá ekki síst náms- og starfsráðgjafa grunn- og framhaldsskólum. Vissulega má þó alltaf gera betur og við lærum af reynslunni. Allar ábendingar um það sem hefði mátt betur fara eru vel þegnar og má senda undirritaðri.

F.h. stjórnar Félags náms- og starfsráðgjafa,

Helga Helgadóttir, formaður.

Mánudagur, 17. March 2014 - 13:00