Dagur náms- og starfsráðgjafar - samantekt

Dagur náms- og starfsráðgjafar 2012

Dagur náms- og starfsráðgjafar var í ár haldinn hátíðlegur föstudaginn 26. október. Dagskráin var glæsileg að venju en yfirskrift dagsins var „Stöndum þétt saman sem stétt". Metþátttaka var á þennan viðburð sem má túlka þannig að mikill áhugi er á samvinnu og samstöðu meðal félagsmanna.

Eftir setningu námsstefnunnar tók Ingrid Kuhlman frá Þekkingarmiðlun við. Hún leiddi stærstan hluta dagsins í formi þjóðfundar þar sem umræðuefnið gekk út á stefnumótun og framtíðarsýn náms- og starfsráðgjafa. Félagsmönnum var deilt niður á níu borð og valinn var einn „lóðsi" fyrir hvert borð.

Eftirfarandi þrjár spurningar voru lagðar fyrir:

Hverjir eru styrkleikar okkar sem stéttar?

Hverjir eru veikleikar okkar sem stéttar?

Hvaða tækifæri liggja fyrir okkur?

Að síðustu var farið í að finna út hvaða þrjú atriði dagsins skiptu mestu máli fyrir stéttina.

Mjög skýrar niðurstöður komu úr þessari hópavinnu og þær helstu eru að flestir vilja að stofnað verði eitt stéttarfélag. Með stéttarfélagi er hægt að tryggja launakjör og réttindi félagsmanna, efla stéttarvitund, fagvitund og skerpa á lögverndun. Auðveldara yrði að skilgreina fyrir hvað við stöndum sem stétt og endurskoða starfslýsingar sem gæti meðal annars leitt til fjölgunar stöðugilda. Hugmynd kom um að kjósa fulltrúa á næsta aðalfundi FNS til að skoða möguleika á stofnun stéttarfélags og voru allir sammála um að það þyrfti öflugan launaðan talsmann. Til að gera þetta mögulegt er til dæmis hægt að athuga hvort möguleiki er á styrkjum. Ráðlegt gæti verið að verða undirfélag hjá t.d. BHM og mikilvægt er að í kjaranefnd sitji fulltrúar frá öllum sviðum.

Sýnileiki stéttarinnar vefst fyrir mörgum. Hægt væri að auka sýnileika með því að stofna kynningarnefnd á vegum félagsins sem hefði ákveðin markmið og myndi deila út verkefnum. Við þurfum að auglýsa starf okkar, efla samvinnu og liðsheild, draga fram atburði og sinna samskiptum við fjölmiðla. Hægt væri að setja fundi að hausti þar sem náms- og starfsráðgjafar kynna störf sín. Förum í útrás og gerum okkur sýnilegri á innlendum og erlendum vettvangi. Til þess þurfum við meðal annars að hlúa betur að starfsþróun og auka sí- og endurmenntun starfsstéttarinnar innanlands og utan.

Það þarf samtengja öll stigin frá grunnskóla upp í atvinnulífið, efla samvinnu og kynningarstörf. Náms- og starfsráðgjafar geta veitt ráðgjöf fyrir öll stig og því verið tenging milli skóla og atvinnulífs og ávallt í fararbroddi hvað varðar náms- og starfsráðgjöf. Með meiri kynningu og sýnileika getum við eflt náms- og starfsráðgjöf í atvinnulífinu. Við þurfum að stökkva á ný tækifæri sbr. netráðgjöf og starfsþróun. Hafa þarf í huga að þróun starfsferils einstaklinga hefur breyst mikið á síðustu árum, hann er örari og tekur meiri umskiptum, þetta getur verið sóknarfæri fyrir okkar stétt. Með heildrænni stefnu og lýsingu stöndum við sterkari. Ábyrgðaraðili að þessu ætti að vera Mennta- og menningarmálaráðuneytið í samstarfi við fagfélagið.

Nauðsynlegt er að koma á einhverskonar gagnabanka sem væri sameiginlegur vettvangur fyrir verkefni, verkfæri og samvinnu, sameiginlega reynslu og krafta. Nota heimasíðu FNS, Facebook og fleiri miðla og nýta betur það sem til.

Eftir mjög gagnlegan þjóðfund og góðan hádegisverð kom María Ellingsen leikkona. Hún fór í skemmtilega leiki með okkur og gaf okkur góð ráð til að efla öryggi í framkomu og jákvætt viðhorf.

Allir fóru heim með bros á vör, ánægðir með framtakssemi og hugmyndaauðgi hópsins.

Fyrir hönd Fræðslunefndar FNS,

Ingibjörg Kristinsdóttir

Miðvikudagur, 14. nóvember 2012 - 10:30